Saturday, October 31, 2009

Ólafur Hrunverji - mistækur bloggari í afneitun

Ekki er við því að búast að allir fyrrverandi háttsettir bankamenn og fjármálaráðgjafar læðist með veggjum og láti ekkert í sér heyra. Allir mega svo sannarlega taka til máls og taka þátt í opinberri umræðu, en sumum tek ég með meiri fyrirvara en öðrum.

Ólafur Arnarson er læsilegur og lipur pistlahöfundur sem ég hef áður vikið að á þessari síðu og skrifar nær daglega á Pressuna. En Ólafur er ekki hlutlaus. Hann er að mínum dómi vafasamur sagnaritari hrunsins. Greinilega í liði Hrunverja, sem annar bankamaður skilgreinir í skemmtilegum pistli. (Sá má eiga það að gangast við sínu liði.) Ólafur tekur up hanskann fyrir íslenska bankamenn og telur orð Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra um að íslenskur bankamenn hefðu verið þeir verstu í heimi ómakleg og skaðleg.

Ólafur er greinilega í þeim hópi sem telur að stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar beri meiri ábyrgð og segir svo:
Hér skal það fullyrt að íslenskir bankamenn eru í hópi hinna bestu í heimi. Íslenskir bankar náðu undraverðum árangri á erlendrum mörkuðum en það var ónýtt eftirlitskerfi og vondir innviðir, sem skópu ógæfu Íslands. Góðir bankamenn ganga eins langt og kerfið leyfir þeim.

Merkileg orð, svo ekki sé meira sagt! Hér snýr Ólafur heldur betur hlutum á haus. Óbreyttir þegnar þessa lands geta vissulega og réttilega áfellst stjórnvöld fyrir að hafa leyft bankamönnum að ganga "eins langt og kerfið leyfir þeim", en bankamennirnir sjálfir geta tæplega skýlt sig á bakvið þá afsökun það var ónógt eftirlit með þeim! Hljómar svolítið eins og dópisti að ásaka Fíknó fyrir of mikið framboð af dópi.

Ég er sjálfur menntaður efnafræðingur. Ef ég hefði nú lagt stund á efnaverkfræði og hannað efnaverksmiðjur og olíuhreinsistöðvar sem hefðu svo allar sprungið í loft upp og eyðilagt allt í kringum sig myndi ég snúa mér að einhverju allt öðru, keyra rútu, smíða lykla, bera út blöð, eitthvað þar sem engin hætta væri á að ég sprengdi upp heilu bæina. Allra síst myndi ég segja

Þetta er allt eftirlitsverkfræðingum að kenna, og skorti á regluverki. Ekki benda á mig! Góðir efnaverkfræðingar ganga eins langt og kerfið leyfir þeim.


Íslensk verksmiðja, vonandi vel hönnuð og traustbyggð.

5 comments:

  1. Þú ert ekki sá eini sem hnaust um þetta, ég var búinn að klóra mér aðeins yfir þessu einnig.

    Það er samt svo skrítið að þeir sem nýttu sér frelsið hvað mest, gengu eins langt og þeir vildu, fóru fram á það að eftirlitið yrði sem minnst, allir kenna þeir nú um að stjórnsýslan sem hlýddi þeim eins og vel alinn hundur, og eftirlitið sem þeir mótuðu sér til hagsbóta, hafi brugðist.

    Er ekki kominn tími til að lita aðeins í eigin barm?

    ReplyDelete
  2. Þetta er alveg rétt hjá þér.
    Lyftaramaður sem slasar sig á lélegum (hugsanlega bremsulausum) lyftara þarf að bera hluta ábyrgðarinnar sjálfur: Þú áttir að vita betur! Segir hæstiréttur. Maður lamaðist þegar hann stakk sér í grunna sundlaug (illa merkta). Hann þurfti að bera 30% af tjóninu sjálfur.
    Þegar bankamenn taka þátt í aðgerðum sem setja þjóðarskútuna á hvolf þá: Ég gerði bara það sem mér var sagt að gera.
    Ýmsir áhrifamenn hafa sagt um skuldsett fólk að "það átti að vita betur- að krónan var of há? Venjulegt fólk- almennir launþegar getur sjálfu sér um kennt..
    En þegar kemur að ábyrgð bankamanna sem vel flestir eru háskólamenntaðir þá er hún engin!

    ReplyDelete
  3. Sæll Einar

    Þú færð smá plögg í kommentunum hjá Agli sem einnig er með góðan pistil um þetta undarlega viðhorf:
    http://silfuregils.eyjan.is/2009/11/01/af-daudasyndum-hroka-og-okkar-besta-folki/

    Eitt sem ég hef velt fyrir mér nokkuð lengi er eftirfarandi: Með svona viðhorfi, að það megi ganga eins langt og lögin leyfa, eru menn þá ekki að biðja um strangari lagasetningu? Ef þetta er hið almenna viðhorf í viðskiptalífinu, er það ekki réttlæting fyrir harðari reglusetningu og í raun setur þrýsting á ábyrg stjórnvöld til slíkrar lagasetningar?

    Ólafur hlýtur þá að vera fylgismaður þess að um fjármálaviðskipti gildi strangar reglur ef hann er samkvæmur sjálfum sér.

    Guðbjörn

    ReplyDelete
  4. Sæll Guðbjörn,

    jú þetta er rökrétt ályktað. Ólafur er í raun að segja að bankastjórar séu óttalegir óvitar, eða a.m.k. óábyrgir, og þurfi aðhald og strangar reglur. Þetta kallast forsjárhyggja eða svona eins konar sósíalismi...

    ReplyDelete
  5. Kanadíski rithöfundurinn John Ralston Saul (núverandi forseti PEN) skrifaði fyrir um 15 árum bókina The Doubter's Companion: A Dictionary of Aggressive Common Sense. Í þessari bók útskýrir hann það sem hann telur rétta merkingu valinna orða (sem er oft ólík þeirri merkingu sem við eigum að venjast). Í umfjöllun um "Ethics" (A matter of daily and practical concern described glowingly in universal terms by those who intend to ignore them) ræðir hann þá staðreynd að flestir breyta rétt án þess að hafa meðvitaða siðfræðilega teóríu.

    Hann tekur
    tekur dæmi um gamla konu á gangstétt. Það er vesen að stíga úr vegi, svo ef enginn er að horfa hversvegna ekki bara að hrinda henni fyrir næsta bíl og ganga beint. Nánast öllum borgurum þætti slíkt af og frá, þeir einfaldlega stíga til hliðar.

    Eftir sem áður segir John Ralston, eru til aðilar sem tala um siðferði á þann hátt að rökrétt er að þeim þætti réttlætanlegt að hrinda gömlu, amk. ef enginn væri að horfa, (Ég er að einfalda umfjöllun hans, hann ræðir fjögur ólík viðhorf, en ekki bara þessi tvö ofangreindu). Viðhorf þessara aðila er að siðfræði snúist um reglur og (fyrir suma) hvað þú kemst upp með.


    Mér virðist að John Ralston myndi telja Ólaf í þessum síðari hópi, þ.e. þeim hópi sem telur að komist maður upp með það, eigi að gera það.

    Ekki að ég búist við því að hann hrindi gamlingjum fyrir bíla, en hugsandi maður eins og hann er örugglega ætti að sjá að það er eitthvað tómahljóð í því viðhorfi að sjálfsagt sé að ganga eins langt og menn komist.

    ReplyDelete