Sunday, October 4, 2009

Hundrað þúsund milljónir


Margir hafa rýnt í fjárlagafrumvarpið sem kynnt var fyrir helgi og spáð og spekúlerað hvort skera mætti meira niður sums staðar og hlífa einhverju annars staðar. Eigum við að sleppa Óperunni í nokkur ár? Óperusöngvararnir okkar fínu geta þá alltaf farið í jarðarfaraharkið, við höldum víst áfram að deyja bæði í góðæri og hallæri. Öðrum þykir sem Forseti lýðveldsinis gæti eflaust sparað meira, vilja ekki flestir að hann haldi sig bara inni á Bessastöðum og segi sem minnst? Hvað með Stórstúku Íslands? Þeir fá 1.3 milljón samkvæmt frumvarpinu. Vissulega eru margir liðir sem velta má fyrir sér, þó fáir varði mjög háar fjárhæðir. (Og þó, hvernig var með Varnamálastofnun, átti ekki að leggja hana niður? Hún kostar tæpan milljarð á næsta ári. Og liðurinn "Fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll" kostar 618 milljónir...?)

Ýmsum finnst alltof skarpt stefnt að ná hallalausum fjárlögum. Ég veit nú ekki, halli samkvæmt (óraunhæfum) fjárlögum næsta árs er áætlaður 87,4 milljarðar, halli þessa árs er áætlaður 182,3 milljarðar og hallinn 2008 var 216 milljarðar, samtals 485 milljarðar, uppsafnaður halli á þremur árum, vonandi þó verstu árum kreppunnar.


Það er töluvert meira en heildartekjur ríkisins áætlaðar á næsta ári, sem eru þó óraunhæft ofáætlaðar. Ég held við megum alls ekki hafa meiri halla eða í lengri tíma en langtímaplanið með AGS gerir ráð fyrir. Hallann þarf að greiða með lánum og lánin bera vexti, og það eru vextirnir sem eru að drepa okkur og liggja sem ofhlaðin ballast ofan í kili þjóðarskútunnar löskuðu.

Á þessari greinargóðu síðu er fín myndræn framsetning á fjárlögunum. Hægt er skoða náðar hvern lið og sjá hvernig útgjöld hvers ráðuneytis greinast.


Þarna sést að ein súlan stingur sérstaklega í augu, stingst hreinlega sem bjálki í augntóftina á manni, það er einmitt liðurinn vaxtagjöld, uppá 99 milljarða og 570 milljónir. Þetta eru vextir sem ríkissjóður greiðir á næsta ári eingöngu, af lánum. Meira en öll heilbrigðisútgjöld samanlagt. Vaxtagjöldin á þessu ári (2009) verða um 104 milljarðar, sömu upphæð er spáð fyrir 2011, en svo er gert ráð fyrir að vaxtakostnaður lækki.


Ríkissjóður er sem sagt að greiða vaxtakostnað sem nemur 21,3% af (ofáætluðum) tekjum. Ímyndaður þér nú eitt augnablik að þú sért með 468 þúsund krónur á mánuði, og þurfir að greiða af því 99,570 krónur í vexti. Býsna skuggalegt.


Þetta er sjúklega há tala, 100 þúsund milljónir, bara vextir, ekki afborganir, sem rúlla út úr ríkissjóði. Hundrað þúsund milljónir á færibandi, það eru 273 milljónir á dag, á hverjum degi ársins. (Framlag ríkisins til Íslensku Óperunnar á næsta ári verður samkvæmt frumvarpinu 140 milljónir, jafnt vaxtakostnaði á hálfum degi.)


Gengur þetta upp? Það er von að spurt sé. Í fjárlagafrumvarpinu er vaxtakostnaðurinn lítillega ræddur:




Eitt væri gætt að fá á hreint: ræður vaxtastig hér á landi (stýrivextir) einhverju um þennan ógnar-vaxtakostnað?


No comments:

Post a Comment