Thursday, October 8, 2009

Auðvelt að gagnrýna - Ólafur A. þarf að skýra betur

Ólafur Arnarson er afkastamikill pistlahöfundur og skrifar oft á tíðum skemmtilega og skorinorða pistla á Pressunni. Ólafur er fljótur að greina hlutina og setja fram á skýran hátt. En sumir hlutir eru flóknir og ekki til gagns að einfalda um of og horfa bara á aðra hliðina. Í pistli frá því í dag 8.10. segir Ólafur:

Prógramm AGS gengur út á að við tökum 5,2 milljarða dollara að láni til að tryggja hag spákaupmanna, sem tóku áhættu á vaxtamunarviðskiptum með krónuna og að við tökum 2,4 milljarða punda að láni frá Bretum og 1,4 milljarða evra frá Hollendingum til að greiða fyrir innistæður Breta og Hollendinga, sem létu glepjast af gylliboðum Landsbankans.

Prógrammið gengur sem sagt út á að við Íslendingar tökum tæplega 1400 milljarða króna að láni í erlendum gjaldeyri til að greiða beint út úr landinu til útlendinga. Þetta er í hnotskurn efnahagsáætlun AGS fyrir Ísland. Eini stöðugleikinn, sem efnahagsáætlunin á að leiða til á Íslandi er sá, að gengi krónunnar á að haldast stöðugt á meðan við losum útlenska spákaupmenn út úr stöðum sínum hér á landi.

Auðvitað má orða þetta svona, "við Íslendingar" greiðum peninga úr landi til "útlendinga".

Hin hliðin er sú að þessir útlendingar lögðu sitt fé hér til varðveislu og vilja nú fá þá endurgreitt. Er hægt að bara sleppa því að skila peningunum?

Ýtum Icesave aðeins til hliðar, um sangirnissjónarmið á báða bóga í því máli hefur ótal margt verið skrifað. Hin hlutinn af peningunum sem Ólafur er að tala um eru krónubréf. Hvað leggur Ólafur til? Að eigendur þeirra eigi bara að leysa út sínar peninga í íslenskum krónum og fara heim og veggfóðra með þeim og skipti þeim bara alls ekki yfir í annan gjaldeyri? Að við afléttum aldrei gjaldeyrishöftunum?

Ég er ekki að segja að ég skilji til hlítar hagfræðilegu rökin á bakvið gjaldeyrisvarasjóðinn og hversu stór han þurfi að vera, en ef menn halda því fram að AGS áætlunin sé ómöguleg hvað þetta varðar og að við þurfum ekkert að spá í afdrif þessara krónubréfa þarf að skýra það miklu betur og benda á hvaða skárri valkostir eru í stöðunni.

No comments:

Post a Comment