Nú ætla ég mér ekki að taka upp hanskann fyrir Guillou, þekki manninn ekki og það getur vel verið að hann hafi ungur og róttækur látið nota sig, þó hann haldi því nú fram að hann hafi bara verið að leika á njósnarana og gert þetta í þeim tilgangi að afla sér upplýsinga og fræðast um njósnastarfsemi KGB, sem blaðamaður, allt í "journalistiskt syfte".
En sagan er meira "djúsí" en þetta og kannski ekki hægt að ætlast til að Dogga-krækjubloggarar viti um forsögu málsins. Guillou er nefnilega einn fárra Svía sem hefur í raun og veru verið dæmdur fyrir njósnir, það var þegar árið 1973. Guillou kom þá upp um ansi umfangsmikla njósnastarfsemi sænsku leynilögreglunnar innan raða ýmissa sænskra róttækra félagasamtaka. Njósnastofnun Svía hafði m.ö.o. plantað sínum "moldvörpum" inn í ýmsa hópa sem ríkið taldi grunsamlegt, svo sem vinasamtök Palestínumanna og fleiri. Þetta fannst Guillou skammarlegt, að ríki skyldi njósna um þegna sína, og birti heilmikinn greinaflokk um málið sem kallast í Svíþjóð "IB-affären". Fyrir vikið fékk Guillou 10 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm, fyrir að ljóstra upp um ríkisleyndarmál Svía.
Einhverjir kynnu að segja að hann eigi það nú inni að hafa svo þrátt fyrir allt verið raunverulegur njósnari, en ekki bara dæmdur fyrir að hafa komið upp um stórabróðurlega hegðun sænsku leynilögreglunnar!
Ég myndi hins vegar bíða og sjá hverju sænsk blöð komast að næstu daga áður en ég fullyrði að Guillou geti kallast landráðamaður eins og íslenskir bloggarar hrópa nú svo hlakkar í þeim. Í mínum huga er það eitt og sér klárlega ekki landráð að hitta sovéska njósnara, eða stela handa þeim eintaki af innanhússímaskrá bandaríska sendiráðsins í Stokkhólmi, sem kvað hafa verið eitt af verkefnum Guillou.
En það vekur hjá manni vissan ugg hvað orðið landráð er mörgum tamt í munni og í sjálfur sér ekki skrýtið að skrímslabloggarar skulu hikstalaust telja landráð njósnafundi manns sem bjó ekki yfir neinum ríkisleyndarmálum, þeir hinir sömu hafa jú briglsað stjórnmálamenn um landráð fyrir það eitt að gera sitt besta til að halda fljótandi þjóðarskútu sem aðrir sigldu á sker og nánast hvolfdu.
Veggspjald frá frægri herferð sænskra stjónvalda í seinni heimsstyrjöld til að hvetja landsmenn til þagmælsku gagnvart útlendingum. Fyrir þá sem eru ekki sleipir í sænsku þyðir textinn bæði "sænskur tígur" og "Svíi þagar".
P.S. Bækur Guillou um hin ímyndaða ofurnjósnara Carl Hamilton eru prýðis reyfarar enda höfundur hafsjór af fróðleik um margvíslega starfshætti njósnara og kryddar hressilega!
P.P.S. Ég vil endilega biðja Eyjuna að merkja nú skilmerkilega krækjur í blogg-pistla af Pressunni sem slíka og gefa upp nafn höfundar eins og alla jafna er gert, svo maður rambi ekki óvart inn á eitthvert loddarablogg þegar krækjan virðist vísa í frétt.
P.P.S. Ég vil endilega biðja Eyjuna að merkja nú skilmerkilega krækjur í blogg-pistla af Pressunni sem slíka og gefa upp nafn höfundar eins og alla jafna er gert, svo maður rambi ekki óvart inn á eitthvert loddarablogg þegar krækjan virðist vísa í frétt.
Áhugavert. Treysti á að þú upplýsir mann um málið reglulega:)
ReplyDelete