Thursday, October 1, 2009

Óraunhæf fjárlög ákall til allra flokka?

Ég hef oftar en ekki talað fyrir því hér t.d. á bloggi, Facebook og víðar að skattahækkanir séu nauðsynlegar og sjálfsagðar við aðstæður eins og þessar sem nú eru. Og þá meina ég skattahækkanir sem skila einhverju, ekki eins og sú hugmynd sem nefnd var í sumar með einhvern "prinsipp" hátekjuskatt uppá örfá prósent á tekjur yfir 700 þúsund, sem myndi í mesta lagi skila ríkissjóði örfáa milljarða.

Ég sæi fyrir mér t.d. skattþrep um 5% á allar tekjur yfir 400 þúsund, og önnur 5% á allar tekjur yfir 750 þúsund. Slík hugmynd myndi hafa eftirfarandi breytingar í för með sér á heildarskattprósentu (miðað við hámarksútsvar og persónufrádrátt 42.205 kr):

tekjur / núverandi % / myndi verða / skatthækkun á mánuði:

250.000 / 31,1% / 31,1% / 0 kr
500.000 / 34,2% / 35,2% / 5.000 kr
750.000 / 35,3% / 37,6% / 17.500 kr
1000.000 / 35,8% / 40.0% / 42.500 kr

Með svona hækkun væri enginn með milljón eða lægri laun að borga hærri tekjuskatt en 40%. Nú þekki ég ekki nógu vel tekjudreifingu allra landsmanna til að geta slegið á hversu miklu svona útfærsla myndi skila.

Með þeim tillögum sem eru í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir um það bil þrefalt meiri skattahækkun en þetta. Til að sú upphæð sem tekjuskattur einstaklinga skilar eigi að hækka um ríflega þriðjung, úr 106.7 milljörðum í 143.5 milljarða, þarf skattprósentan að hækka að meðaltali um ríflega 10% sýnist mér svona fljótt á litið. Það þýðir að sá sem er með 400.000 kr brúttó á mánuði þurfi að borga 40-50.000 kr meira í skatt á mánuði, fjölskylda með samtals 600.000 missir a.m.k. 70.000 kr aukalega í skatt á mánuði á næsta ári. Á hún þann afgang nú um hver mánaðarmót? Getur hún skorið niður sín útgjöld svo hressilega??

Rétt upp hönd, hversu margir landsmenn geta um þessar mundir hagrætt til að láta af hendi auka tíund af sínum brúttó tekjum?

Þá er ekki einu sinni litið til þess að tekjuskattstofninn á enn eftir að minnka á næsta ári svo sjálfsagt þyrfti skattprósentan að hækka enn meira til að ná þessu inn.

Þessi tillaga er fantasía, það veit fjármálaráðherra vel og embættismannaliðið sem vann þetta frumvarp. Ég held þetta sé eins konar gjörningur, til að kalla fram viðbrögð þingmanna allra flokka: -svona er þetta, komið þið með tillögur, hvar viljið þið skera niður?

1 comment:

  1. Spurning hvort við eigum að skipta út utanríkisþjónustunni fyrir símsvara sem segir við gefumst upp á ensku, þýsku, frönsku, rússnesku og kínversku. Það virðist allavega vera niðurstaðan hvort sem er og gæti sparað 10 miljarða.

    Svo mætti segja kirkjunni að innheimta sín eigin félagsgjöld og spara þannig tæpa 4 mijlarða.

    Leggja af stuðning við einkaskóla og spara þannig um 10 miljarða.

    Skattleggja allar eignir í lífeyrissjóðakerfinu fyrirfram og nota fjármunina til að borga niður skuldir landsins svo hægt væri að minnka vaxtarkostnað ríkisins um nokkra tugi miljarða á ári.

    Bjóða 30-35% í skuldir ríkisins að hætti Ekvador og minnka vaxtargreiðslur um nokkra tugi miljarða til viðbótar.

    Taka upp toll á súrál a.m.k. til jafns við þá tolla sem munu gilda ef gengið verður í ESB.

    ReplyDelete