Thursday, September 24, 2009

Tölur


Tölur eru gagnlegar til að mæla hluti, bera saman, vega og meta. En til að skilja tölur þurfum við að geta sett þær í samhengi, tengt þær við okkar reynsluheim. Við áttum okkur á hversu lengi er verið að keyra 500 km á malbikuðum vegi, við vitum að 140 kg maður er býsna þungur og að 20 stiga hiti er notalegur hiti á íslensku sumri.Að sama skapi er erfitt að skilja í huganum kílómetrafjölda til annarrar reikistjörnu eða þyngd Esjunnar í tonnum. 20 milljón tonn, er það stórt eða lítið fjall?

Ef við náum ekki að tengja tölur við veruleikann sem við þekkjum eru þær ekki eins áþreifanlegar. Reikistjarnan Satúrnus er að meðaltali 1,43 milljarða kílómetra frá jörðu. Hversu langt er það?

Tölur eru bráðnauðsynlegar til að vega og meta margvíslega hluti. Ef það á að byggja blokk við hliðina á húsinu þínu skiptir heilmiklu máli hvort hún er 3 hæðir, 6, eða 18, og hvort blokkinni fylgir bílastæði fyrir 12 bíla eða 100.

Í ár eru 40 ár síðan álver tók til starfa sunnan við Hafnarfjörð. Álverið þótti mikil lyftistöng, fjöldi manns fékk vinnu við að reisa það og vinna í því, enn aðrir reistu virkjanir til að útvega verksmiðjunni rafmagn. Framleiðslugeta þessa álvers var 33 þúsund tonn á ári. Verksmiðjan var stækkuð í áföngum og 1980 vou framleidd 100 þúsund tonn á ári. Verksmiðjan var svo aftur stækkuð 1995-97 og framleiður nú um 180 þúsund tonn á ári. (Heimild) Verksmiðjan í Straumsvík er m.ö.o. um sex sinnum stærri nú en þegar hún var vígð, og þarf sex sinnum meira rafmagn.

1998 var gangsett álver við Grundartanga í Hvalfirði. Framleiðslugeta þess var í fyrsta áfanga 60.000 tonn á ári og 2001 var hún aukin í 90.000 tonn. Á árinu 2006 var framleiðslugetan aukin í 220 þúsund tonn og í 260 þúsund tonn árið 2007. (Heimild)

Þriðja og nýjasta íslenska álverið í Reyðarfirði var gangsett 2007 og framleiðir um 360 þúsund tonn á ári, 11 sinnum meira en framleitt var í Straumsvík í upphafi. Þannig eru nú framleidd 800 þúsund tonn af áli á Íslandi á ársgrundvelli. Það er 24 sinnum meira en þegar álframleiðsla hófst hér fyrir 40 árum. Álverið í Reyðarfirði framleiðir þannig tæpan helming af öllu álinu.

Það álver sem menn vilja reisa í Helguvík á samkvæmt nýjustu fréttum líka að vera 360 þúsund tonn. Í dag dugir greinilega ekkert nema risaálver.

En risaálver þurfa risavirkjanir. Ef álverið fyrir austan hefði verið t.d. "bara" 200 þúsund tonn hefði mátt hafa hina mjög svo umdeildu Kárahnjúkavirkjun mun minni og yfirborð Hálslónsins hefði getað verið lægra. Þannig hefðu sparast fjölmargir ferkílómetrar af lyngi þöknu landi.

Viljum við gjörnýta alla fáanlega orku af Hellisheiði og mögulega þurrausa jarðgufuna þar á fimmtíu árum, auk þess að nýta all orku úr nýrri Þjórsárvirkjun fyrir álver í Helguvík? Gætu Norðurálsmenn kannski sætt sig við t.d. 180 þúsund tonna álver? Það væri samt meira en fimmfalt stærra en upphaflega álverið í Straumsvík.


Fluttur!

Ég hef fært blogg skrif mín yfir á nýjan vettvang, sjáum hvernig þetta reynist.