Ég hef verið hugsi yfir deilum og mótmælum vegna flóttamanna og hælisleitenda sem sendir voru úr landi fyrir skemmstu. Mótmælendur hafa heilmikið til síns máls, aðstæður sem flóttamenn eru sendir tilbaka til á Grikklandi eru slæmar, þar eru fyrir þúsundir flóttamanna og langflestir þeirra eru svo sendir til síns heimalands þaðan sem þeir flúðu.
Mótmælendur vilja líta á
mannúðarsjónarmið og hafa verið mjög duglegir að líta á þessi tilteknu mál liðinna vikna frá mjög
persónulegu sjónarhorni, með því að kynna og segja frá þeim ungu mönnum sem í hlut áttu, þeirra aðstæðum og bakgrunni. Mótmælendur vilja að við lítum á flóttamennina ungu sem
einstaklinga. Fjölmiðlar birta við þá viðtöl, sýna myndir og segja sögur.
Ragna dómsmálaráðherra er úthrópuð sem
vond, hún taki ákvarðanir sem hafi hörmulegar afleiðingar fyrir þessa tilteknu nafngreindu og geðþekku einstaklinga.
Og þetta er vissulega á margan hátt satt og rétt. En ég held þó alls
ekki að dómsmálaráðherra sé vond. Hún tók ákvörðun á grundvelli nokkuð skýrra og einfaldra reglna sem legið hafa fyrir í einhverja mánuði. Ef mótmælendur eru ósáttir við
reglurnar eiga þeir að færa rök fyrir því að þeim verði breytt.
Það er ekki að það sé beinlínis rangt að líta á þessu má persónulega, en það gerir umræðuna alla voða
tilfinningasama og ekki að sama skapi auðveldari viðureignar. Sú nálgun sem mér virðist mótmælendur beita hlýtur að leiða til þeirrar niðurstöðu að
allir sem á annað borð koma sér inn fyrir landsteinana á flótta frá raunverulega erfiðum aðstæðum megi vera hér áfram.
En þá vaknar spurningin, hvað með
alla hina? Þá sem ekki tókst að skrapa saman aur fyrir flugmiða hingað. Þá sem sitja fastir í ömurlegum flóttamannabúðum. Hvað með hina 20.000 flóttamennina á Grikklandi sem fá algjörlega ófullnægjandi aðstoð og málsmeðhöndlun og verða næsta víst sendir tilbaka? Á bakvið þá tölu eru líka
einstaklingar, með sína sögu, erfiðar minningar, kærustur, áhugamál og drauma. Við stöndum frammi fyrir erfiðri siðferðislegri spurningu, er
ómannúðlegt að senda flóttamenn sem leita sér hælis hér aftur til Grikklands? Berum við
meiri ábyrgð á þeim sem hingað koma eða vilja koma, en
hinum sem eru þar og þjást jafn mikið eða meira?
Þetta leiðir okkur að
dilemma, sem snýr að tvískinnungi okkar gagnvart umheiminum. Við sem erum svo ljónheppin að fæðast í einu ríkasta landi heims (jú, landið okkar er
enn í þeim klúbbi!) vitum að stór hluti jarðarbúa býr við hreint ömurlegar aðstæður. Við gerum hins vegar fæst mikið í því. Við látum það ekki trufla okkar dagsdaglega líf að fjöldi fólks býr við örbirgð, hungur, vosbúð og stríð. Það bætir svo sem ekki líf neins ef við göngum með nagandi samviskubit alla daga. En við getum auðvitað lagt okkar lóð á vogarskálarnar. Við getum stutt barnaheimili í fátækum ríkjum, skólagöngu munaðarlausra og önnur samfélagsleg verkefni og reynt að beita okkur fyrir pólitískum leiðum með rödd okkar lands á alþjóðlegum vettvangi til að bæta kjör fátækra landa, og draga úr ójöfnuði. Og ALDREI aftur styðja stríð sem haldið er útí á grundvelli lyga og blekkinga eins og í innrásinni í Írak og leiddi hörmungar yfir milljónir fólks.
En að við tökum á móti
öllum flóttamönnum sem banka á dyr er ekki sjálfsagt. Betra er ef flóttamenn geti búið í sínum heimahögum og það vilja þeir eflaust helst af öllu sjálfir. Kannski eru viðmið okkar óþarflega stíf, en ég velti fyrir mér hvort það myndi ekki spyrjast út ef hér væru dyr opnaðar upp á gátt og við fengjum hingað meiri fjölda fólks en við ráðum við.
Ég er algjörlega ósammála
Stefáni Pálssyni um að Ragna ráðherra hefði átt að afgreiða þetta mál "pólitískt", hreinlega skil varla hvað hann á við. Hvernig átti hún
pólitískt að komast að annarri og réttari niðurstöðu?
EF málið er að við teljum allsendis ófullnægjandi móttaka og meðferð flóttamanna í Grikklandi eigum við einfaldlega
ekki að endursenda þangað flóttamenn, heldur afgreiða þeirra mál hér heima. En til þess beitum við gagnsæjum og sanngjörnum reglum svo allir njóti
jafnræðis. Það er miður að það það taki marga mánuði að afgreiða beiðnir hælisleitenda. Hvort þeir öðlist
meiri rétt á að vera sem hafa beðið hér lengi og eignast vini meðal ungra VG-liða er erfið og viðkvæm spurning sem verður ekki svarað með hávaðasömum mótmælum.